Írskir dagar tókust gríðarlega vel

Írskir dagar tókust lygilega vel en bæjarhátíðin fór fram í 18. sinn um s.l. helgi. Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar – og safnamála á Akranesi, segir við skagafrettir.is að hátíðarhöldin hafi gengið vonum framar í ár. „Það var mikið af fólki sem kom í heimsókn en það er erfitt að finna nákvæma tölu á fjöldann því margt hafi verið í boði á sama tíma,“ segir Ella María.

Það er óhætt að segja að Írskir dagar séu að verða risastór fjölskylduhátíð þar sem m.a. brottfluttir Skagamenn fjölmenna með fjölskyldur sínar á gamlar heimaslóðir.

Grímar Teitsson og Petrún Berglind Sveinsdóttir áttu að mati dómnefndar best skreytta húsið á Írskum dögum og fengu þau að launum tvo flugmiða til Írlands.

Að venju var rauðhærðasti Íslendingurinn útnefndur og að þessu sinni sigraði Sigurður Heiðar Valgeirsson í þeirri keppni.

Skemmtidagskráin á Írskum dögum var fjölbreytt og áhugaverð. Þúsundir manna komu á Lopapeysuballið, fjölmenni tók þátt í golfmóti á Garðavelli hjá Golfklúbbnum Leyni og á sunnudeginum var heljarmikil hátíð í Garðalundi eða skógrækt Skagamanna fyrir yngri kynslóðina.

Grímar Teitsson og Petrún Berglind Sveinsdóttir áttu að mati dómnefndar best skreytta húsið á Írskum dögum og fengu þau að launum tvo flugmiða til Írlands.

Frá fjölskylduhátíðinni í blíðunni í Garðalundi þar sem hundruðir komu saman. Mynd/Hlédís.

Að venju var rauðhærðasti Íslendingurinn útnefndur og að þessu sinni sigraði Sigurður Heiðar Valgeirsson í þeirri keppni. Mynd/myndasmiðjan.

Tónlistarfólk úr Slitnum strengjum skemmtu í götugrillum á Akranesi og fór hópurinn víða. Mynd/myndasmiðjan.

Það var góð stemning á Akratorginu þar sem margt var í boði alla hátíðina á Írskum dögum. Mynd/myndasmiðjan.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri leyndi ekki gleði sinni með Írska daga. Það voru ekki allir jafnglaðir og bæjarstjórinn eins og sjá má í fremstu röð til hægri þá var álagið farið að gera vart við sig. Mynd/myndasmiðjan.