Ferjan Akranes sem hefur siglt á milli Reykjavíkur og Akraness frá 14. júní s.l. mun fjölga daglegum áætlunarsiglinum sínum frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram á mbl.is. Akranes hefur siglt þrisvar sinnum á dag en frá og með næsta mánudegi verða ferðirnar alls fjórar daglega. Þar að auki verður bætt við ferðum um helgar en margir hafa kallað eftir slíkri þjónustu. Tvær ferðir verða í boði daglega á laugardögum og sunnudögum.
Framkvæmdastjóri Sæferða, sem sér um siglingarnar, segir að þjónustan hafi farið vel af stað.
„Þetta fer bara vel af stað. Við sjáum auðvitað greinilegan mun á háttarlagi fólks þegar það er sól eða þegar það er rigning og rok og það er eðlilegt,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, í samtali við mbl.is.
Ferjan tekur 112 farþega en mestur hingað til hefur fjöldi farþega í einni ferð verið um 60-70 manns að sögn Gunnlaugs.
Hægt er að kaupa staka ferð í ferjuna á 2.500 krónur eða ferð fram og til baka á 4.000 kr. Þá er einnig hægt að kaupa 20 miða kort þar sem ferðin er á 875 krónur.
Helgarferðirnar sem hefjast á morgun verða bæði á laugardögum og sunnudögum klukkan 10 frá Reykjavík og klukkan 11 til baka og þá aftur klukkan 17 frá Reykjavík og til baka klukkan 18 frá Akranesi. Ferðin sem bætt verður við á virkum dögum frá og með mánudeginum verður að líkindum klukkan 14 frá Reykjavík og kl. 15 til baka frá Akranesi.