Körfuboltastjörnur Íslands mæta Belgíu á Akranesi

Það er stórviðburður í íþróttahúsinu við Vesturgötu laugardaginn 29. júlí kl. 17.00 þar sem A-landslið Íslands í körfubolta mætir Belgíu í vináttulandsleik. Leikurinn er liður í undirbúningi landsliðsins fyrir lokakeppni EM sem fram fer í Finnlandi í haust og er þetta í annað sinn sem Ísland leikur í lokaúrslitum EM.

Jón Þór Þórðarson, þjálfari ÍA í körfubolta, segir í samtali við skagafrettir.is að mikil tilhlökkun ríki hjá félaginu að fá það verkefni að taka á móti íslenska landsliðinu.

„Við hvetjum alla til að koma og upplifa með okkur stóran dag í sögu félagsins. Miðaverðinu er stillt í hóf eða 1500 kr. fyrir fullorðana og 500 kr. fyrir 15 ára og yngri. Ferjan Akranes mun sigla aukaferð frá Reykjavík vegna leiksins frá Vesturbugt kl 15.00 og til baka kl. 19:30. Sérstakt tilboð verður á fargjaldinu með ferjunni eða 3000 kr. fram og til baka. Og við Gamla Kaupfélagið verður sett upp svæði fyrir stuðningsmenn „Fan Zone“ og þar verða góð tilboð fyrir þá sem þangað mæta frá kl. 14:00,“ segir Jón Þór en kl 15:45 mun landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen kíkja við og spjalla við stuðningsmenn á þessu svæði.

Hann bætir því við að í íslenska landsliðinu er ákveðinn „Skagatenging“ – og að sjálfsögðu á Vesturlandið einnig. „Feður Pavels Ermolinskij og Kristofers Acox spiluðu báðir með ÍA, Pavel á sinn fyrsta meistaraflokksleik skráðan með ÍA ásamt því að hafa leikið með Skallagrím. Axel Kárason og Sigtryggur Arnar Björnsson spiluðu lengi með Skallagrím og Hlynur Bæringsson á að baki glæstan feril með Snæfell. Í þjálfarateymi Íslenska liðsins er svo Borgfirðingurinn Arnar Guðjónsson. Það er því um að gera fyrir Vesturlandið og landsmenn alla að fjölmenna á Skagann á laugardaginn og styðja okkar menn til sigurs, áfram Ísland,“ sagði Jón Þór Þórðarson.