Akraneskaupstaður tekur ákvörðun í lok ágúst hvaða tilboði verður tekið í niðurrif á byggingum og búnaði Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Verkefnið er risavaxið og verða 16 mannvirki rifinn og rúmmál þeirra er um 40.000 m3. Verklok eru áætluðu í ágúst 2018.
Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður nefndar um uppbyggingu á Sementsreitnum, segir í viðtali við RÚV að verksmiðjan hafi tilfinningalegt gildi fyrir marga en flestir séu sammála um að spennandi tímar séu framundan.
Sementsverksmiðjan á Akranesi var reist á árunum 1955-1958 og hefur lengi verið talin eitt helsta kennileiti Akraneskaupstaðar.
Rakel segir að samkvæmt tillögum nefndarinnar sé verið að halda í nokkrar byggingar sem hafi tilfinningalegt gildi fyrir íbúa. „Í tillögunum í dag sem við erum að vinna að í dag erum við að halda í strompinn, við erum að halda í sílóið og pökkunarstöðina og færibandið sem kemur yfir Faxabrautina og í rauninni skrifstofubyggingin stóra, það er það sem við erum að halda í núna og allt annað verður rifið og svo verður þetta bara endurmetið með tíð og tíma.“