Gríðarlega góð stemning og fjölmenni á körfuboltalandsleiknum

Ísland og Belgía áttust við í vináttulandsleik í körfuknattleik karla s.l. laugardag í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Þetta var fimmti A-landsleikurinn í körfubolta sem fram fer á Akranesi og var mikill fjöldi áhorfenda sem mætti á svæðið. Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands hrósar Skagamönnum fyrir þeirra framlag vegna landsleiksins í pistli sem hann skrifar á fésbókarsíðu sína.

Að vera með landsleiki í körfunni í lok júli getur verið krefjandi t.d til að fá áhorfendur en það var nú heldur betur ánægjulegt hversu margir mættu bæði í Smárann og Akranesi. Takk kærlega fyrir komuna þið öll sem mættuð á leikina.
Breiðabliki, ÍA og öllum þeim sem störfuðu við leikina þakka ég fyrir góða framkvæmd og skemmtilegt samstarf í aðdraganda leikjanna. Við erum svo sannarlega rík í körfunni af duglegu og metnaðarfullum einstaklingum sem leggja metnað í að gera hlutina vel.
Áfram ÍSLAND 🇮🇸🏀

Frá vinstri: Guðbjörg Norðfjörð varaformaður KKÍ, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söngkona sem söng þjóðsöngvana fyrir leik, Sigríður Indriðadóttir úr bæjarstjórn Akraness, Helga Sjöfn Jóhannesdóttir formaður ÍA og Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ.

Þess má geta að Ísland lagði Belgíu að velli í báðum leikjunum og var sigurinn nokkuð öruggur á Akranesi.

Lokatölur 85:70  en íslenska liðið var með 44:32 for­ystu í hálfleik og var sig­ur­inn aldrei í hættu. Hauk­ur Helgi Páls­son var stiga­hæst­ur í ís­lenska liðinu með 23 stig. Hlyn­ur Bær­ings­son skoraði 17 stig og Hörður Axel Vil­hjálms­son var með tíu stig ásamt því að taka sex frá­köst og gefa sex stoðsend­ing­ar.