Tryggvi Hrafn á förum frá ÍA – samdi við Halmstad

Tryggvi Hrafn Haraldsson hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Halmstad. Framherjinn, sem er 21 árs gamall, hefur leikið stórt hlutverk með liði ÍA og er hann markahæsti leikmaður liðsins með fimm mörk í 13 leikjum. Hann skoraði einnig tvö mörk í bikarkeppni KSÍ.

Samkvæmt heimasíðu Halmstad gerir Tryggvi samning sem gildir út árið 2019 eða í rúm 2 ár.  Halmstad kaupir Tryggva frá ÍA og mun hann ekki leika fleiri leiki með ÍA á þessu tímabili.

Tryggvi fer úr bullandi fallbaráttu með liði ÍA í fallbaráttuna í sænsku úrvalsdeildinni. Halmstad er í næst neðsta sæti deildarinnar en næsti leikur er á laugardaginn gegn Sirius.

„Halmstad hafði samband við félagið eftir KR leikinn í vikunni með ósk um að kaupa Tryggva Hrafn og eftir viðræður milli liðanna í gær varð úr að Knattspyrnufélag ÍA samþykkti þeirra tilboð í Tryggva. Vissulega er mikill missir af Tryggva en við erum með sóknarmenn innan okkar raða sem munu fylla skarð hans. Stjórn Knattspyrnufélags ÍA er ánægð fyrir hönd Tryggva sem á sannarlega framtíðina fyrir sér. Það ber vott um að stefna félagsins er að skila árangri að á rúmu einu ári hafa 5 leikmenn spilað með U21 landsliðinu, 2 með A landsliðinu og 2 leikmenn hafa verið seldir í atvinnumennsku.“ segir Magnús Guðmundsson formaður KFÍA