20 ára bið á enda hjá Birgi – fyrsti sigurinn á atvinnumóti

Skagamaðurinn Birgir Leifur Hafþórsson fagnaði sínum fyrsta sigri á Áskorendamótaröðinni í golfi í dag. Sjöfaldi Íslandsmeistarinn úr GKG þurfti ekki að tía boltann upp á lokahringnum því lokaumferðin var felld niður vegna úrkomu.

Birgir var með sjö högga forskot fyrir lokahringinn og stóð því uppi sem sigurvegari. Þetta er í fyrsta sinn á löngum ferli Birgis sem hann nær að sigra á atvinnumóti erlendis – en Áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu. Birgir setti mótsmet þrátt fyrir að hafa ekki leikið nema 54 holur en hann lék hringina þrjá á -18 samtals (63-65-64). Gamla mótsmetið var -15 á 72 holum.

Mótshaldarar ákváðu að fella niður lokaumferðina þegar fyrstu keppendur höfðu farið út á völlinn í morgun. Fyrir sigurinn fékk Birgir Leifur 33.600 Evrur eða 4,3 milljónir kr. Alls hefur Birgir Leifur fengið um 6,4 milljónir kr. í verðlaunafé á þessu tímabili á alls 11 mótum.

Birgir Leifur hóf atvinnumannaferilinn árið 1997 og hefur hann aldrei leikið betur en í ár á Áskorendamótaröðinni. Með sigrinum fer Birgir Leifur upp í 16. sæti á stigalistanum á Áskorendamótaröðinni og keppnisréttur á sjálfri Evrópumótaröðinni er í augsýn.

„Þetta var minn dagur, og þessi vika hefur verið frábær. Það er langt síðan ég gerðist atvinnumaður og ég hef oft verið í baráttunni en aldrei náð að fara alla leið. Þriðji hringurinn hefur oft verið vandamálið. Gærdagurinn var því stór dagur fyrir mig og það var gaman að fá verðlaunagripinn. 20 ár eru langur tími en mér finnst eins minn tími sé kominn. Ég var taugaóstyrkur í gær, og ég var að verja stöðuna. En þegar ég setti fyrstu púttin ofaní þá fóru hlutirnir að ganga mér í hag. Það er vissulega miður að ég þurfi ekki að leika lokahringinn en golfið hjá mér þessa vikuna er það besta sem ég hef leikið á ferlinum.“

„Sigurinn breytir öllu fyrir mig. Ég get farið að skipuleggja mig betur og ég kemst inn á stóru mótin sem eru framundan. Það getur allt gerst og það snýst allt um að vera í hópi 15 efstu á stigalistanum í lok ársins,“ segir Birgir Leifur í viðtali á heimasíðu Áskorendamótaraðarinnar.

Birgir Leifur er íþróttastjóri Golfklúbbsins Leynis en hann keppir fyrir hönd Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Staðan: