Skagamenn öruggir með sæti í deildinni

Keppnistímabilið í körfuboltanum fer að hefjast á næstu vikum. Karlalið ÍA leikur æfingaleiki í íþróttahúsinu við Vesturgötu um helgina og fyrsti leikurinn er í kvöld gegn liði Snæfells frá Stykkishólmi. Leikurinn hefst kl. 19.15. Á laugardaginn mætir ÍA liði Vestra frá Ísafirði en öll þessi lið eru í næst efstu deild í Íslandsmótinu í vetur.

Bandaríkjamaðurinn Derek Shouse verður á ný með ÍA í vetur en hann lék með ÍA í fyrra. Liðið er skipað blöndu af yngri og eldri leikmönnum og uppbyggingarferlið heldur áfram hjá félaginu. Jón Þór Þórðarson og Stefán Hreinsson eru þjálfarar liðsins líkt og í fyrra.

Í vikunni kom það í ljós að lið Hrunamanna/Laugdæla mun ekki spila í 1. deild karla n.k. vetur eins og stóð til. Stjórn félaganna hefur dregið liðið úr keppni og verður því 1. deild karla skipuð níu liðum næsta vetur. Þar sem deildini er skipuð níu liðum sem spila þrefalda umferð verða 24 leikir á lið. Ekkert lið mun falla úr deildinni þar sem deildin er ekki full mönnuð. Það er því ljóst að Skagamenn halda sæti sínu í 1. deild karla á þessari leiktíð.