Tímamótum FVA fagnað með veglegri hátíð á laugardaginn

Það verður mikið um að vera í húsakynnum Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi laugardaginn 16. september. Þá verður haldið uppi á 40 ára afmæli skólans með veglegri afmælisveislu – og þér er boðið í veisluna. Opið hús verður frá 14.00-19.00 í húsakynnum FVA en formleg dagskrá hefst á sal skólans kl. 14.30 við Vogarbraut 5 á Akranesi.

Í tilkynningu frá FVA segir að þegar hátíðarræðum ljúki verði boðið upp á kaffiveitingar, myndasýningar og tónlistaratriði. Dagskránni lýkur með tónleikum kl. 16:00-18:30. Allir velunnarar skólans eru velkomnir.

Fjölbrautaskólinn á Akranesi, síðar Fjölbrautaskóli Vesturlands (FVA), fagnar 40 ára starfsafmæli í ár. FVA var stofnaður formlega árið 1987 með undirritun samnings milli 32 sveitarfélaga á Vesturlandi og menntamálaráðuneytis um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla.

Byggt var á grunni Fjölbrautaskólans á Akranesi sem tók til starfa í september 1977 þegar Gagnfræðaskólinn á Akranesi og Iðnskólinn á Akranesi sameinuðust. Samningurinn frá 1987 hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina m.a. vegna breytinga á lögum um framhaldsskóla og nú standa sex sveitarfélög að skólanum, þ.e. Akranes, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur og Hvalfjarðarsveit.

FVA býður nám á bóknámsbrautum til stúdentsprófs (félagsfræðabraut, opin stúdentsbraut, náttúrufræðabraut og viðbótarnám til stúdentsprófs), starfstengdum námsbrautum (grunnnám iðngreina, húsasmíði, húsgagnasmíði, rafvirkjun, vélvirkjun og sjúkraliðabraut), brautabrú og starfsbraut. Auk framangreindra námsbrauta er við skólinn afreksíþróttasvið sem er samstarfsverkefni skólans, Íþróttabandalags Akraness og Akranesbæjar. Sviðið er fyrir nemendur sem hafa stundað afreksíþróttir í töluverðan tíma og vilja hafa aukið svigrúm til að stunda íþrótt sína samhliða námi.

Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Samningur sveitarfélaga á Vesturlandi og menntamálaráðuneytis 1987 um að reka öflugan framhaldsskóla bætti jafnframt aðstöðu Vestlendinga til að afla sér menntunar. Í dag gegnir FVA mikilvægu hlutverki í samfélagi þar sem fólki þarf að standa til boða fjölbreytt tækifæri til að auka hæfni sína á lífsleiðinni.