Aðalstjórn knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) hefur ákveðið setja á laggirnar meistaraflokksráð karla en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem má lesa í heild sinni neðar í þessari frétt. Viktor Elvar Viktorsson er formaður nefndarinnar en hann situr jafnframt í aðalstjórn KFÍA.
Viktor var í ítarlegu viðtali í útvarpsþættinum Akraborgin á X-inu í dag þar sem að Hjörtur Hjartarson ræddi við formanninn. Þar kemur ýmislegt fróðlegt fram og þar ber það hæst að Viktor Elvar telur að stjórn félagsins hafi brugðist – og ekki veitt yngri leikmönnum ÍA nægjanlegt skjól – og vísar þar til leikmannakaupa félagsins sem hafa ekki skilað því sem til var ætlast.
Viðtalið við Viktor Elvar er aðgengilegt í heild sinni hér fyrir neðan.
Viktor Elvar sagði m.a. að markmiðið meistaraflokksráðs sé fyrst og fremst að vera ráðgefandi og til stuðnings. „Við erum ekki að fara að fylgjast með æfingum liðsins, anda ofaní hálsmálið á þjálfaranum og hafa skoðun á því að hvort það eigi að teygja eða taka spretti,“ sagði Viktor m.a. í viðtalinu.
Leikmannamál hafa mikið verið í umræðunni á undanförnum misserum og þá sérstaklega hversu illa hefur gengið að fá gæðaleikmenn til félagsins.
„Menn hafa talað um að gera mætti betur þar, við fáum því fleiri að borðinu til að aðstoða okkur. Meistaraflokksráðið er aðallega sett á laggirnar til þess að veita stjórninni upplýsingar og vera fagaðili fyrir stjórnina á þessu sviði. Það eru ekki margir í stjórn Knattspyrnufélagsins sem hafa leikið knattspyrnu í efstu deild. Og menn vildu fá faglega þáttinn inn á borð stjórnar með slíku ráði.“
Viktor Elvar sagði ennfremur að stjórn félagsins hefði brugðist í því að veita ekki yngri leikmönnum liðsins skjól og það ætti ekki að snúa frá þeirri stefnu að gefa ungum leikmönnum ÍA tækifæri með liðinu.
„Okkar mat er að stefna félagsins sé rétt, það er frekar að við í stjórninni hafi brugðist. Við höfum ekki veitt yngri leikmönnum liðsins skjól og þeir hafa þurft að taka hlutina á kassann – og ekki verið með réttu mennina með sér, ég er þá að vísa í leikmannakaupin. Meiðsli leikmanna hafa einnig sett svip sinn á gengi liðsins og menn sjá það að þegar Árni Snær Ólafsson markvörður liðsins kemur inn í þetta aftur hvernig allt hefur breyst til hins betra.
Það verður haldið áfram í þá stefnu að spila ungum og efnilegum Skagamönnum og vanda þarf betur til í vali á erlendum leikmönnum. Við viljum fá unga leikmenn til þess að þróast sem knattspyrnumenn á Akranesi og það er enginn útilokaður ef hann hefur ekki Skagagenin í sér,“ sagði Viktor Elvar Viktorsson m.a. í viðtalinu í Akraborginni.
Fréttatilkynning KFÍA er í heild sinni hér fyrir neðan:
Kæru stuðningsmenn,
Gengi meistaraflokks karla hefur ekki verið samkvæmt væntingum í sumar og staða félagsins í Pepsi-deildinni er erfið. Á sama tíma erum við með ungt og efnilegt lið sem hefur gríðarlega mikinn metnað til að gera góða hluti á komandi árum.
Til að styrkja bakland meistaraflokks karla hefur aðalstjórn knattspyrnufélags ÍA (KFÍA) ákveðið setja á laggirnar meistaraflokksráð karla. Hlutverk ráðsins er að eiga reglubundin samskipti við þjálfara meistaraflokks karla og 2. flokk karla um markmið og árangur. Hafa ráðgefandi hlutverk í leikmannamálum og þjálfaramálum. Einnig verður hlutverk ráðsins að stuðla að því að gildi KFÍA verði í hávegum höfð en þau eru; Metnaður – Vinnusemi – Þrautseigja – Virðing – Agi. Aðalstjórn KFÍA hefur fengið reynslumikla einstaklinga til að taka þátt í starfi meistaraflokksráðs en allt eru þetta fyrrverandi leikmenn meistaraflokks með mikla reynslu að baki m.a. sem atvinnumenn í erlendum liðum. Þetta eru Viktor Elvar Viktorsson formaður en hann situr jafnframt í aðalstjórn KFÍA, Haraldur Ingólfsson, Sigurður Sigursteinsson, Stefán Þór Þórðarson og Þórður Guðjónsson.
Meistaraflokksráð mun vera aðalstjórn ráðgefandi í ofantöldum málum og styðja við þjálfarateymi og leikmenn meistaraflokks karla. Vonandi er þetta fyrsta skrefið í að KFÍA standi að nýju undir því heiti að vera stórveldi í íslenskum fótbolta.