Kalmanskórinn komst ekki áfram í Kórar Íslands

Kalmanskórinn frá Akranesi fékk góða dóma í gær hjá dómnefndinni í nýjum þætti á Stöð 2 sem heitir Kórar Íslands. Kórinn söng lagið Lazy Daisy eftir Spilverk Þjóðanna en alls tóku fjórir kórar þátt í fyrsta þættinum.

Karlakór Vestmanneyja vann símakosninguna gær en val dómnefndar var Gospelkór Jóns Vídalíns. Þessir tveir kórar halda því áfram keppni í undanúrslitum. Hér fyrir neðan má sjá og heyra hvernig kórarnir sungu í fyrsta þættinum.

Allir þættirnir verða í beinni útsendingu og eru vegleg verðlaun í boði fyrir sigurkórinn. Kórarnir þurfa að vera með tíu eða fleiri félaga til þess að geta tekið þátt og kórfélagar þurfa að vera 16 ára og eldri.

Kórarnir sem keppa í Kórar Íslands koma frá öllu landinu. Þriggja manna dómnefnd er skipuð þeim Kristjönu Stefánsdóttur og Bryndísi Jakobsdóttur og Ara Braga Kárasyni. Sá síðastnefndi á Íslandsmetið í 100 metra hlaupi og er þar að auki einn besti trompetleikari landsins. Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður, er kynnir í þessum þáttum.