Nýverið setti Jón Gunnlaugsson á laggirnar fésbókarsíðuna Á Sigurslóð. Þar rifjar Jón upp áhugaverða hluti úr knattspyrnusögu Akraness. Í nýjum pistli segir Jón frá ótrúlegu afreki Eyleifs Hafsteinssonar sem braut blað í íslenskri knattspyrnusögu árið 1964.
Í fjölmiðlaumræðu nútímans eru afrek einstaklinga í íþróttum oft rædd á annan hátt en gerðist á árum áður. Fjölbreytnin er að vísu mikið meiri en var þá. Eins vekur margt mikla athygli í dag sem mönnum fannst ekkert sérstakt áður. Aldrei var minnst á stoðsendingar eða klobbana hér áður fyrr eða verið að velja menn leiksins, úrvalslið umferðar eða jafnvel rusllið svo nokkur dæmi séu nefnd.
Ég hugsa oft til gamla tímans þegar ég er að hlusta á sérfræðingana fara með himinskautum í umfjöllun sinni nú til dags. Sumt er gert að verðleikum og sumt síður. Mig langar til að rifja hér upp afrek einstaklings frá fyrri árum og síðan er hægt að velta því fyrir sér hvernig fjölmiðlaumræðan væri, ef einhver leikmaður í Pepsi deildinni 2017 léki eftir afrek þessa frábæra leikmanns.
Eyleifur Hafsteinsson leikmaður Akurensinga var að hefja sinn knattspyrnuferil á stóra sviðinu 1964. Það sumar braut hann blað í íslenskri knattspyrnusögu svo um munar. Hann varð þá sá yngsti til að skora mark í 1. deild, hann skoraði sitt fyrsta mark þrem dögum áður en varð 17 ára gamall. Hann var svo yngsti fyrirliðinn í leik á 17 ára afmælisdegi sínum. Þá varð hann einnig sá yngsti til að skora þrennu í leik gegn Þrótti í 7-2 sigri. Til að toppa þennan þátt hans varð hann í lok mótsins markakóngur deildarinnar 17 ára og 119 daga gamall. En afrekin voru fleiri.
Hann lék alla þrjá landsleiki sumarið 1964 og hélt þeirri stöðu sinni í landsliðinu næstu átta árin. Sumarið 1965 lék hann í fyrsta U-18 landsliði Íslands og var fyrirliði þess liðs.
Eyleifur lék með ÍA og KR og á sínum ferli. Hann varð þrívegis Íslandsmeistari 1968, 1970 og 1974 og bikarmeistari 1966. Þá lék á sínum ferli 26 landsleiki, skoraði í þeim leikjum 4 mörk og var tvívegis fyrirliði. Þar braut hann einnig blað í sögunni þegar hann varð yngsti landsliðsmaðurinn 17 ára og 58 daga gamall. Hann var hann svo yngsti fyrirliði landsliðsins tvítugur að aldri.
Þess má geta að Ríkharður Jónsson var að leika sinn fyrsta landsleik um svipað leyti og Eyleifur fæddist og þegar Eyleifur lék fyrsta landsleikinn var Ríkharður samherji hans þar. Geri aðrir betur.