Árni Snær Ólafsson markvörður hjá meistaraflokki karla í knattspyrnu hjá ÍA hefur endurnýjað samning sinn við félagið til næstu tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍA. Mörg félög í Pepsi-deildinni voru á höttunum eftir Árna Snæ sem valdi að semja við uppeldisfélagið sitt. Samkvæmt heimildum skagafrettir.is hafði KR rætt við Árna Snæ og fleiri félög höfðu áhuga á að fá hann til sín.
„Árni er uppalinn hjá ÍA og er gríðar mikilvægur fyrir ÍA liðið jafnt innan vallar sem utan. Árni sem er 26 ára gamall, spilaði sinn fyrsta deildarleik sumarið 2009, en frá árinu 2014 hefur hann verið aðalmarkmaður Skagamanna með stuttum hléum. Árni er spenntur að takast á við það verkefni sem framundan er: „Það er gríðarlegur metnaður í gangi hjá ÍA og spennandi verkefni framundan við að koma liðinu aftur í röð þeirra bestu. Ég vil svo sannarlega taka þátt í þeirri áskorun og þar skiptir miklu máli að ég er einfaldlega með svo stór Skagahjarta. Ég hlakka líka til að starfa með nýjum þjálfurum liðsins þeim Jóa Kalla og Sigga Jóns, þar er öflugt teymi á ferðinni „ segir Árni Snær.
Jóhannes Karl Guðjónsson nýráðinn þjálfari ÍA liðsins er að vonum ánægður með þessi tíðindi: „Árni er lykilmaður í Skagaliðinu og hann hefur sýnt að auk þess að vera feikna góður markmaður þá er hann líka mikill leiðtogi á vellinum. Undir stjórn Guðmundar Hreiðarssonar markmannsþjálfara ÍA hefur Árni náð miklum framförum undanfarin ár og stimplað sig inn sem einn af allra bestu markvörðum landsins“ segir Jóhannes Karl