Bryndís Rún Þórólfsdóttir, hefur svo sannarlega látið að sér kveða á sínu fyrsta tímabili í bandaríska háskólafótboltanum. Bryndís Rún, sem er leikmaður ÍA, stundar háskólanám University of the Pacific í Stockton í Kaliforníu. Bryndís Rún var valin í úrvalslið nýliða í Vesturdeild NCAA háskólakeppninnar.
Bryndís Rún var í byrjunarliðinu í öllum 20 leikjum liðsins á tímabilinu. Bryndís Rún skoraði alls fjögur mörk en það hefur ekki gerst hjá nýliða hjá kvennaliði skólans í knattspyrnu frá árinu 2009. Skagakonan er aðeins fjórði nýliðinn í sögu skólans sem er valin í þetta úrvalslið.
Kerri Scroope þjálfari liðsins hrósar Bryndísi Rún í viðtali á heimasíðu skólans. „Bryndís er vinnuhestur liðsins. Hún hefur leikið nánast hverja einustu mínútu og að fá slíkt framlag frá nýliða er frábært. Hún er með hæfileika sem hún nýtir til að stjórna leiknum og skora mikilvæg mörk með langskotum. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig Bryndís Rún á eftir að þroskast sem leikmaður hjá okkur á næstu árum,“ segir Scroope.