Hryllingur á Skaganum – þorir þú á Frostbiter?

Frostbiter kvikmyndahátíðin hefst föstudaginn 10. nóvember á Akranesi en þetta er annað árið í röð sem þessi hátíð fer fram. Myndirnar sem sýndar eru á hátíðinni eru í flokki hryllingsmynda sem njóta mikilla vinsælda. The Circle er fyrsta myndin sem sýnd verður á opnunarhátíðinni í Bíóhöllinni.

Um er að ræða breska hrollvekju þar sem að íslenska leikkonan Sessíla Ólafsdóttir leikur eitt af aðalhlutverkunum. Eftir að myndin hefur verið sýnd munu Sessilía og Peter Callow leikstjóri myndarinnar svara spurningum áhorfenda úr salnum.

Að lokinni sýningu verður boðið upp á Pub Quiz keppni í Dullarfullu búðinni og eflaust verður brugðið þar á leik með þeim sem elska hryllingsmyndir.

Frostbiter hátíðin heldur síðan áfram á laugardag og sunnudag, þar sem að hryllingsstuttmyndir víðsvegar úr heiminum verða sýndar. Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar.

Ársæll Rafn Erlingsson er einn af frumkvöðlunum í þessu verkefni. Ársæll segir að það séu töfrar í hryllingnum.

„Það þarf ekki mikinn pening til þess að gera hrollvekju sem hefur áhrif á fólk. Hvort sem það grætur, hlær eða öskrar. Sumar bestu hryllingsmyndirnar voru gerðar með svakalega litlu fjármagni, lélegum leikurum og gervilegu blóði en þær eru samt æðislegar. Fólk sem fer á hryllingsmyndir sækist í að vera í öruggu umhverfi og upplifa hræðslu og spennu,“ segir Ársæll hátíðarstjórnandi Frostbiter.