ÍA missir toppliðsfélaga með brotthvarfi Derek Shouse

Derek Shouse hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili með körfuknattleiksliði ÍA. Bandaríski leikmaðurinn varð fyrir því óláni að slíta vöðva í aftanverðu læri og var ljóst að það tæki langan tíma fyrir bakvörðinn að ná bata. ÍA og Shouse komust að samkomulagi um að Shouse færi til Bandaríkjanna í endurhæfingu.

Alls hefur Derek leikið 30 leiki fyrir ÍA og skorað í þeim 25,1 stig að meðaltali auk þess að taka 9,6 fráköst og gefa 5,2 stoðsendingar og hefur hann verið að skila 25,9 framlagsstigum að meðaltali í leik fyrir félagið. Eins og gefur að skilja er ÍA liðið vængbrotið eftir brotthvarf Shouse en hans verður einnig sárt saknað sem þjálfari yngri flokka ÍA segir í tilkynningu frá félaginu.

„Derek hefur allan sinn feril hjá ÍA tekið virkan þátt í starfi yngfriflokka félagsins og hlutverk hans utan vallar hefur verið síst minna en hlutverk hans innan vallar. Það er margt gott hægt að segja um Derek en það sem stendur uppúr hjá honum er að hann er topp liðsfélagi. Við hjá ÍA þökkum Derek kærlega fyrir samstarfið hingað til og óskum við honum góðrar heimferðar og síðast en ekki síst góðs bata.“