Mörg fyrirtæki á Akranesi hafa á undanförnum dögum glímt við mesta kerfishrun Íslandssögunnar hvað varðar hýsingu á gögnum og heimasíðum hjá fyrirtækinu 1984.
Á meðal þeirra er héraðsfréttablaðið Skessuhorn en fréttavefurinn skessuhorn.is hefur legið niðri s.l. daga.
Í tilkynningu á fésbókarsíðu Skessuhorns kemur fram að unnið sé nýjum fréttavef og standa vonir til þess að nýr vefur verði aðgengilegur eftir hádegi í dag, föstudag. Þær vonir hafa ræst því nýr vefur er nú aðgengilegur á veraldarvefnum.
Fleiri fyrirtæki á Akranesi eru enn í vandræðum vegna hrunsins hjá 1984 og má þar nefna sansa.is en pöntunarsíða fyrirtækisins liggur enn niðri.
Í frétt á skessuhorn.is kemur fram að þar var til öryggisafrit af stórum hluta heimasíðunnar skessuhorn.is og er nú búið að færa þau gögn yfir til nýs hýsingarfyrirtækis. Greinar á skessuhorn.is frá 17. október sl. til 16. nóvember eru ekki komnar í loftið og verða ekki fyrr en tekist hefur að endurheimta gögn frá 1984.is (ef það tekst).
Mikið vantar inn af eldri myndum og öðru efni.