Skagamenn sigursælir á Íslandsmótinu í sundi

Keppendur frá Sundfélagi Akraness unnu alls til sex verðlauna á Íslandsmótinu í 25 metra laug sem fram fór um helgina. Skagakonan, Inga Elín Cryer, sem keppir fyrir Sundfélagið Ægi, vann til tvennra verðlauna.

Ágúst Júlíusson varð Íslandsmeistari í 100 metra flugsundi og hann varð þriðji í 50 metra flugsundi. Sævar Berg Sigurðsson fékk tvenn silfurverðlaunm í 100 m. og 200 m. bringusundi. Hann fékk einnig bronsverðlaun í 50 metra bringusundi – og tryggði hann sér keppnisrétt á Norðurlandamótinu með árangri sínum.

Alls voru fjórir sundmenn úr ÍA sem náðu lágmarkinu fyrir Norðurlandamótið, Ágúst Júlíusson, Ágúst Júlíusson, Sævar Berg Sigurðsson og Brynhildur Traustadóttir. Það mót fer fram í desember og verður spennandi að fylgjast með því.

Karlasveit Sundfélags Akraness varð í þriðja sæti í 4×100 metra fjórsundi á nýju Akranesmeti.

Inga Elín fékk silfurverðlaun í 50 metra flugsundi og hún varð Íslandsmeistari í 100 metra flugsundi. Hún tryggði sér einnig farseðil á Norðurlandamótið og náði lágmörkum fyrir það mót.

Árangur sundfólksins frá Akranesi var góður þar sem að 55 persónulegar bætingar náðust og 24 einstaklingar kepptu í úrslitasundi.

Boðsundssveit SA. Ágúst, Erlend, Sævar og Atli.
Ágúst Júlíusson efstur á palli.
Inga Elín Cryer.