Verður Valdís sjöundi Skagamaðurinn sem keppir á ÓL?

Valdís Þóra Jónsdóttir atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi tók risastökk á heimslistanum í golfi sem er uppfærðu vikulega. Um s.l. helgi endaði Valdís Þóra í þriðja sæti á móti á LET Evrópumótaröðinn sem er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á stærstu atvinnumótaröðinni.

Valdís Þóra er í sæti nr. 410 sem er besti árangur hennar frá upphafi. Á einu ári hefur Valdís Þóra farið upp um tæplega 350 sæti og færist hú nær og nær því markmiði að komast á Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

Staðan á heimslistanum er gríðarlega mikilvæg fyrir stöðu keppenda fyrir Ólympíuleikana 2020 í Tokýó í Japan.

Alls komast 60 kylfingar inn á Ólympíuleikana hjá báðum kynjum eða 120 keppendur samtals. Viðamikið kvótakerfi er í gangi varðandi þátttökurétt keppenda og er það gert til þess að sem flestar þjóðir eigi möguleika á að koma keppendum inn á ÓL.

Fimmtán efstu á heimslista karla og kvenna komast sjálfkrafa inn á ÓL 2020 en aðeins fjórir geta verið frá sama landi á þeim lista. Kvóti er á fjölda keppenda frá hverri þjóð og geta aðeins tveir að hámarki verið frá sama landi í sætum 16-59 á styrkleikalistanum.

Sem dæmi má nefna að á ÓL í Ríó de Janiero í Brasilíu árið 2016 komst Cathryn Bristow frá Nýja-Sjálandi inn á ÓL. Hún var í sæti nr. 446 þegar heimslistinn var uppfærður þann 11. júlí 2016 en það var síðasti möguleiki keppenda til þess að bæta stöðu sína á heimslistanum.

Á þeim tíma voru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir í sætum nr. 714 og 731 á heimslistanum. Ólafía var því 268 sætum frá því að komast inn og Valdís Þóra var 285 sætum frá því að komast inn á ÓL.

Miðað við stöðuna núna þá væru Valdís Þóra og Ólafía Þórunn báðar í góðri stöðu þegar kemur að því að komast inn á ÓL 2020.

Alls hafa sex Skagamenn komist inn á Ólympíuleikana, fimm úr Sundfélagi Akraness og Árni Þór Hallgrímsson keppti í badminton undir merkjum TBR en hann er fæddur og uppalinn á Akranesi. Tvær sundkonur, Ragnheiður Runólfsdóttir og Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir náðu að keppa tvívegis á Ólympíuleikum á sínum ferli.

Ólympíufarar frá Akranesi frá upphafi: 

1972 í München í Þýskalandi

Finnur Garðarsson
Sund, 100m-, 200m skriðsund

Guðjón Guðmundsson
Sund, 100m-, 200m bringusund

1984 Los Angeles í Bandaríkjunum
Ingi Þór Jónsson
Sund, 100m-, 200m skriðsund, 100m flugsund

1988 Seoul í Suður-Kóreu
Ragnheiður Runólfsdóttir
Sund, 100m-, 200m bringusund, 200m fjórsund

Ragnheiður Runólfsdóttir.

1992 Barcelona á Spáni
Árni Þór Hallgrímsson
Badminton, einliða- og tvíliðaleikur

Ragnheiður Runólfsdóttir
Sund, 100m-, 200m bringusund

2000 Sydney í Ástralíu
Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir
Sund, 100m-, 200m baksund

2004 Aþena í Grikklandi
Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir
Sund, 50m-,100m skriðsund, 100m flugsund