Oskar, Sigurður og Þór sömdu við ÍA til 2019

Uppbyggingarstarfið hjá Knattspyrnufélagi Akraness heldur áfram og í dag var samið við þrjá framtíðarleikmenn úr 2. flokki ÍA. Allir leikmennirnir hafa leikið stór hlutverk með yngri flokkum ÍA og verið viðloðandi meistaraflokk ÍA á undanförnum misserum. Þar að auki hafa þeir allir komið við sögu með yngri landsliðum Íslands, í æfingahóp, og sem leikmenn.

Leikmennirnir eru allir fæddir árið 2000 og eru því 17 ára og þeir heita Oskar Wasilewski, Sigurður Hrannar Þorsteinsson og Þór Llorens Þórðarson.

Oskar er með 101 leiki skráða hjá hjá KSÍ í 2. -4. flokki en hann á einnig að baki 4 landsleiki með U18 ára liðinu.

Sigurður Hrannar á 129 skráða leiki í 2. -4. flokki, hann hefur ekki enn leikið landsleik en hefur verið í æfingahópa U18 liðsins.

Þór Llorens hefur tekið þátt í 108 skráðum leikjum hjá KSÍ í 2.-4. flokki og hefur auk þess leikið 3 landsleiki með U17 liðinu.

Um er að ræða fyrstu samninga leikmannana og er þetta samningaferli í samræmi við stefnu félagsins sem hefur það að leiðarljósi að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri.

Við hér á skagafrettir.is tökum undir góðar óskir sem ÍA sendir þeim í fréttatilkynningunni. Við óskum strákunum öllum innilega til hamingju og treystum því að þeir eigi eftir að gera það gott í fótboltanum í framtíðinni.