Mest lesnu fréttir ársins á skagafrettir.is – sæti nr. 25-30

Nú fer að styttast í að árið 2017 verði gert upp á skagafrettir.is. Við ætlum að byrja niðurtalningu á mest lesnu fréttum ársins en listinn teygir sig reyndar aðeins inn í lok ársins 2016 á upphafsdögum skagafrettir.is. Alls verða 30 mest lesnu fréttir tímabilsins gerðar upp næstu vikurnar og við byrjum á sætum nr. 25.-30.

Hægt er að lesa fréttirnar með því að smella á myndirnar hér fyrir neðan. Allar þessar fréttir fengu vel á annað þúsund heimsóknir og eru enn að fá heimsóknir af og til.

Í sæti nr. 30. er frétt af timbureiningahúsi sem tvær fjölskyldur eru að byggja við Seljuskóga á Akranesi. Fréttin vakti mikla athygli á landsvísu en hún fór í loftið 13. nóvember s.l. og fær enn í dag margar heimsóknir.


Í sæti nr. 29 er pistill frá kynningarfundi um skipulagslýsingu á Sementsreitnum, og Dalbraut/Þjóðbraut. Það er greinilegt að Skagamenn nær og fjær hafa mikinn áhuga á skipulagsmálum og þeim er ekki sama hvernig bærinn þeirra þróast. Fréttin fór í loftið þann 17. febrúar á þessu ári.


Í sæti nr. 28. er viðtal við Katarínu Stefánsdóttur sem hefur vakið athygli fyrir fallega hluti sem hún hefur smíðað í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún var á þessum tíma eini nemandinn sem stundaði nám í húsgagnasmíði við FVA. Fréttin fór í loftið þann 11. desember 2016 og fór svo sannarlega á flug.

Fótboltinn kemur við sögu í 27. mest lesnu frétt ársins á skagafrettir.is. Gunnlaugur Jónsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu, svaraði nokkrum spurningum um stöðu liðsins um miðjan júní á þessu ári. Lesendur skagafrettir.is höfðu mikinn áhuga á að lesa það sem Gunnlaugur hafði fram að færa.

Frændurnir Skarphéðinn Magnússon og Sigurður Már Sigmarsson fór í skemmtilegan leik rétt fyrir jólin 2016. Þar var hár og skegg aðalumfjöllunarefnið. Við hér á skagafrettir.is værum alveg til í að þeir frændur tæku upp á því að gera eitthvað skemmtilegt fyrir þessi jól líka.

Við hér á skagafrettir.is erum alveg á því að þeir frændur ættu að leggja höfuðið í bleyti og gera eitthvað rugl skemmtilegt á næstu vikum sem gæti glatt Skagamenn nær og fjær.