Vinir Hallarinnar halda áfram rekstri Bíóhallarinnar

Rekstur Bíóhallarinnar verður áfram í höndum félagsins Vinir Hallarinnar. Á fundi bæjarráðs nýverið var núverandi samningur við Vini Hallarinnar framlengdur um eitt ár og er hann í gildi út árið 2018.

Bæjarráð beinir því til menningar – og safnanefndar að hlutverk og markmið starfsemi Bíóhallarinnar verði skilgreint við gerð stefnumótunar í menningarmálum á Akranesi.

Í samningnum er greint frá því að greiðslur vegna reksturs Bíóhallarinnar verða óbreyttar á árinu 2018, eða sem nemur 4,8 milljónum kr. fyrir 12 mánaða tímabili.

Bíóhöllin er eitt af merkilegri húsum á Akranesi. Árið 1942 var byrjað á byggingunni fyrir tilstuðlan hjónanna Ingunnar Sveinsdóttur og Haraldar Böðvarssonar. Húsið formlega tekið í notkun 8. október 1943.

Samkv. Alþýðublaðinu frá sunnudeginum 10. október 1943 var húsfyllir í Bíóhöllinni þegar afhending hússins fór fram. Það var séra Þorsteinn Briem sóknarprestur og prófastur sem fór þá með blessunarorð, rakti sögu húsbyggingarinnar og lýsti tilgangi þeirra hjóna með gjöfinni, sem væri sá, „að þangað ættu Akurnesingar að sækja menntun og fróðleik en rekstrarágóðanum að vera varið til stuðnings og uppbyggingu menningar- og mannúðarmála á Akranesi.“

Þangað ættu Akurnesingar að sækja menntun og fróðleik

„Það vakti sérstaka athygli hversu hljóðbylgjur hússins hafa heppnast vel, því að hvortveggja, mælt mál og söngur, nýtur sín sérstaklega vel um allt húsið,“ segir enn fremur – og svo mun vera enn þann dag í dag að sögn fróðra manna í þessum efnum.

Þarna var því Bíóhöllin færð Akurnesingum að gjöf og á næstu árum hjálpaði þetta mjög til við uppbyggingu sjúkrahússins, því nær öllum rekstrarafgangi Bíóhallarinnar var í fyrstu ráðstafað í þá uppbyggingu.

Árið 1943 voru íbúar Akraneskaupstaðar 2026 talsins og fyrsta kvikmyndin sem sýnd var mun hafa verið „Refsinornin“ sem ekki var álitin nein úrvals kvikmynd. Árið eftir, 1944, komu 56.425 sýningargestir í Bíóhöllina á 185 sýningar og því 305 manns að meðaltali á hverja sýningu. Húsið rúmaði 377 manns í sæti. Árið 1963 komu flestir sýningargestir á einu ári, alls 43.491 á almennum sýningum og á barnasýningum 17.050 og samtals 60.541.

Bíóhöllin