Keilumaður ársins: Guðmundur Sigurðsson

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Guðmundur Sigurðsson er keilumaður ársins hjá ÍA. Hann er fæddur árið 1965 og æfir með Keilufélagi Akraness. Guðmundur tók á árinu þátt í fjölda móta og náði ágætum árangri en bestum þó á Íslandsmóti öldunga í Egilshöll í mars þar sem hann varð Íslandsmeistari. Með þeim titli ávann hann sér réttindi til að taka þátt í Heimsmeistarakeppni í keilu sem fram fór í Munchen Þýskalandi dagana 13. – 21. ágúst.

Í október endaði Guðmundur í 2. sæti á Íslandsmóti para ásamt Vilborgu Lúðvíksdóttur. Guðmundur er einn af þjálfurum ÍA í keilu og er þjálfari á afrekssviði. Guðmundur hefur verið þjálfari unglingalandsliðsins um árabil og er ungmennunum góð fyrirmynd í æfingum og keppni. Guðmundur sannar að góð ástundun gefur góðan árangur því hann hefur sjaldan æft og keppt eins mikið og nú og hefur meðaltal hans, sem er 193, aldrei verið hærra en nú.

Eins og áður segir er meðaltal Guðmundar er 193 sem gefur honum 7. sæti í sinni deild af 46 eða í kringum um 25. sæti á landsvísu hjá körlum óháð aldri.