Knattspyrnumaður Kára: Alexander Már Þorláksson

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Alexander Már Þorláksson er knattspyrnumaður ársins hjá Kára. Hann er fæddur árið 1995 og var algjör lykilmaður í liði Kára á árinu sem gerði sér lítið fyrir og sigraði 3. deildina með miklum yfirburðum.

Alexander Már stóð sig frábærlega fyrir framan mark andstæðinganna en hann endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar með 17 mörk í 18 leikjum og var hann 4 mörkum fyrir ofan næsta mann. Hann var því markahæsti leikmaður 3. deildar á Íslandsmótinu.

Alexander Már er einstaklega útsjónarsamur sóknarmaður og mjög góður í að nýta þau færi sem hann fær fyrir framan mark andstæðinganna, að auki er hann góður liðsfélagi og prúður bæði innan og utan vallar. Alexander Már tók þátt í öllum leikjum Kára á tímabilinu og átti stóran þátt í stórsigri Kára í 3. deildinni í sumar. Alexander var valinn leikmaður ársins hjá Kára af þjálfara og leikmönnum á lokahófi félagsins í haust.