Kraftlyftingamaður ársins: Einar Örn Guðnason

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Einar Örn Guðnason er fæddur árið 1991 og æfir með Kraftlyftingarfélagi Akraness. Árið 2017 var virkilega gott keppnisár hjá Einari. Hann vann fjóra Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla á árinu og setti 10 Íslandsmet. Hann er því búinn að setja 63 Íslandsmet frá árinu 2011. Hann hækkaði um eitt sæti á styrkleikalista KRAFT óháð þyngdarflokki og er í þriðja sæti, sem er gríðarlega góður árangur því að á þessum lista eru margir gríðarlega sterkir lyftingamenn á alþjóðavísu.

Einar er einungis 12 kg. frá lágmarki á heimsmeistaramótið sem fer fram í nóvember 2018 og eru miklar líkur á að hann nái því í ársbyrjun. Einar er mjög sterkur karakter og er einstaklega laginn við það að hrífa salinn með sér og hvetur salinn óspart til að sýna öðrum keppendum stuðning ef þörf er á. Einar er mikil og góð fyrirmynd fyrir unga keppendur í þessari grein og duglegur að miðla sinni reynslu til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í greininni.

Helstu afrek Einars á Íslandi á árinu
RIG: 1. sæti -105kg flokki.
Íslandsmeistaramót í klassískum kraftlyftingum: 1. sæti í -105kg flokki.
Íslandsmeistaramót í kraftlyftingum: 1. sæti í -105kg flokki.
Bikarmeistaramót í klassískum kraftlyftingum: 1. sæti í -105kg flokki.
Bikarmeistaramót í kraftlyftingum: 1. sæti í -105kg flokki.
Íslandsmeistaramót í bekkpressu: 1. sæti í -105kg flokki.
Íslandsmeistaramót í réttstöðu: 1. sæti í -105kg flokki.
Íslandsmeistari í klassískum kraftlyftingum óháð þyngdarflokki.
Bikarmeistari í kraftlyftingum óháð þyngdarflokki.
Íslandsmeistari í bekkpressu óháð þyngdarflokki.
Einar setti jafnframt hvorki meira né minna en 10 ný Íslandsmet á árinu.
Einar er í þriðja sæti á styrkleikalista KRAFT óháð kyni, aldri og þyngdarflokki á árinu