Albert bætti tæplega 67 ára gamalt met Ríkharðs

Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, bætti met sem Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson, setti fyrir tæplega 67 árum. Albert skoraði þrennu í 4-1 sigri Íslands gegn Indónesíu og er hann þar með yngsti leikmaðurinn sem skorar þrennu í A-landsleik fyrir Ísland. Albert er fæddur í júní árið 1997 og er því 20 ára og 7 mánaða en hann hefur leikið þrjá A-landsleiki.

Ríkharður Jónsson var 21 árs og 7 mánaða þegar hann skoraði fjögur mörk í fræknum sigri gegn Svíum árið 1951. Hann á því enn metið þegar kemur að því að vera yngsti leikmaðurinn sem skorar fjögur mörk í A-landsleik fyrir Ísland.

Á visir.is kemur fram að tveir Skagamenn eru á lista yfir fimm yngstu leikmennina sem hafa skorað þrennu fyrir Ísland í A-landsleik.

Yngstu leikmenn til að skora þrennu í A-landsleik karla:

20 ára og 7 mánaða
Albert Guðmundsson – 3 mörk á móti Indónesíu 14. janúar 2018

21 árs, 7 mánaða og 17 daga
Ríkharður Jónsson – 4 mörk á móti Svíþjóð 29. júní 1951

22 ára, 10 mánaða og 11 daga
Jóhann Berg Guðmundsson – 3 mörk á móti Sviss 6. september 2013

22 ára, 10 mánaða og 26 daga
Ragnar Margeirsson – 3 mörk á móti Færeyjum 10. júlí 1985

23 ára, 5 mánaða og 9 daga
Teitur Þórðarson – 3 mörk á móti Færeyjum 23. júní 1975

Teitur Þórðarson.