Vefmiðlar eru stærstir á auglýsingamarkaði

Vefmiðlar voru í fyrra með stærsta hlutann af birtingakökunni hjá Pipar/Media, einnar stærstu auglýsingastofu landsins. Er það í fyrsta sinn sem vefmiðlar taka fram úr dagblöðum í auglýsingabirtingum.

Þetta kemur fram í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.

Um 33 prósentum af birtingafé Pipar/MEDIA var varið í auglýsingar í vefmiðlum á síðasta ári. Til samanburðar var hlutfallið 27 prósent árið 2016. Þar á eftir komu dagblöð með 24 prósenta hlutdeild og sjónvarp með 23 prósent, en hlutdeild þeirra miðla lækkaði nokkuð á milli ára.

Fór hlutdeild dagblaðsins úr 28 í 24 prósent og sjónvarpsins úr 25 í 23 prósent. Þá stóð útvarpsmiðillinn í stað með um 17 prósent birtingafjár.

Rannveig Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Pipar/MEDIA, segir auglýsingamarkaðinn breytast hratt um þessar mundir. Staða vefbirtinga sé að styrkjast jafnt og þétt á kostnað prent- og sjónvarpsmiðla. Hún segir jafnframt að á næstu árum verði  hlutur vefmiðla 50%.

Staða vefbirtinga styrkist jafnt og þétt á kostnað prent- og sjónvarpsmiðla

Hún bendir einnig á að víða erlendis sé sjónvarpið yfirleitt stærsti birtingarmiðillinn. Hér á landi hafi dagblöðin hins vegar lengst af verið í afar sterkri stöðu með mestu hlutdeildina. Netið sé þó óðum að ná yfirhöndinni.