Fiskmarkaður opnar á ný á Akranesi

Um s.l. helgi var fiskmarkaður opnaður á ný á Akranesi. Fyrsti aflinn sem boðinn verður upp er afli af Eskey ÓF-80 sem gerir nú út frá Akranesi á vorvertíðinni. Fiskmarkaðurinn opnar í samstarfi við Fiskmarkað Snæfellsbæjar og verður starfræktur að Faxabraut 5. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

„Það er afar mikilvægt að fiskmarkaður sé að opna á ný á Akranesi. Við ætlum okkur að snúa vörn í sókn í útgerð á Akranesi. Bæjarstjórn Akraness hefur lagt á það áherslu að útgerð og fiskvinnsla verða áfram stór þáttur í atvinnustarfsemi á Akranesi og er rekstur fiskmarkaðar grunnstoð í þeirri áherslu. Við Akraness eru gjöful fiskimið og það er okkar að nýta þau tækifæri sem felast í því. Það er sérstaklega ánægjulegt að finna að þrátt fyrir mótbyr þá hefur verið einhugur hjá einstaklingum í útgerð og vinnslu sem og hjá Faxaflóahöfnum að fiskmarkaður verði starfræktur á ný á Akranesi.“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

„Fyrir framtíðar umsvif Akraneshafnar sem fiskihafnar er starfsemi fiskmarkaðar á Akranesi lykilatriði. Það er ánægjulegt að öflugir heimamenn í samstarfi við fiskmarkað Snæfellsbæjar hafa fundið flöt á samstarfi sem vonandi verður gjöfult og farsælt fyrir þá sem nú koma að málum. Í Akraneshöfn er afbragðs aðstaða fyrir útgerðaraðila til að landa fiski og mikil tækifæri í fiskvinnslu, í nýsköpun, í verkefnum tengdum ferðaþjónustu, starfsemi veitingahúsa og fleira. Ég hef þá trú að með því skrefi að tryggja starfsrækslu fiskmarkaðar verði nú hægt að sækja fram á fleiri sviðum.“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarnar vikur og mikið gleðiefni að starfsemi fiskmarkaðar sé hafin að nýju.