Jakob Svavar sigraði í fjórgangi í Meistaradeildinni

Skagamaðurinn Jakob Svavar Sigurðsson heldur áfram að gera frábæra hluti í hestamennskunni. Hann fór með sigur af hólmi í fjórgangi á stólpahryssunni Júlíu frá Hamarsey í fyrstu keppni í mótaröð Meistaradeildar Cintamani í hestaíþróttum sem fram fór í Samskipahöllinni í Kópavogi 2. febrúar s.l. Frá þessu er greint á visir.is.

Sýning Jakobs Svavars einkenndist af öryggi og góðu flæði. Hann hlaut hæstu einkunnir fyrir greitt tölt í A-úrslitum, en viðkvæmast var fetið í sýningu Jakobs Svavars. Lokaeinkunn Jakobs Svavars var 7.70, en hann er í liði Líflands í Meistaraeild Cintamani.

„Þetta var mjög gaman. Ég var engan veginn viss fyrir lokaatriðið, greitt tölt, fannst vera frekar á brattann að sækja, tölurnar rokkuðu þarna upp og niður. Við erum búin að vera í öðru og þriðja sæti áður, við Júlía, þannig að það er gaman að komast í fyrsta sætið,“ sagði Jakob Svavar í viðtali við Stöð 2 en innslagið má sjá hér.

Niðurstöður A-úrslita í fjórgangi í Meistaradeild Cintamani voru eftirfarandi:
1. Jakob Svavar Sigurðsson – Júlía frá Hamarsey – Lífland – 7.70
2. Árni Björn Pálsson – Flaumur frá Sólvangi – Top Reiter – 7.63
3-4. Ásmundur Ernir Snorrason – Frægur frá Strandarhöfði – Auðsholtshjáleiga / Horse export – 7.50
3-4. Elin Holst – Frami frá Ketilsstöðum – Gangmyllan – 7.50
5. Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir – Óskar frá Breiðstöðum – Ganghestar / Margrétarhof / Equitec – 7.17
6. Þórdís Erla Gunnarsdóttir – Sproti frá Enni – Auðsholtshjáleiga / Horse export – 7.07