Tori Ornela mun verja mark ÍA í sumar

Tori Ornela mun verja mark ÍA í næst efstu deild kvenna í fótboltanum í sumar. Ornela er 25 ára gömul og er hún bandarísk. Hún lék með liði Hauka úr Hafnarfirði á síðustu leiktíð og hefur því reynslu af því að leika á Íslandi. Á heimasíðu ÍA segir Ornela að hún sé spennt fyrir því að koma aftur til Íslands.

„Ég er spennt að koma aftur til Íslands og þakklát fyrir að halda áfram knattspyrnuferlinum. Ég hlakka til komandi tímabils og er staðráðin í að bæta mig sem leikmaður.“
Helena Ólafsdóttir þjálfari ÍA er ánægð með fá hávaxinn markvörð í raðir ÍA.

„Við erum gríðarlega ánægðar að fá Tori í okkar raðir. Hún er hávaxin og reynslumikil og getur styrkt bæði markmannsteymið og liðið.

Katrín María Óskarsdsdóttir verður ekki með ÍA á næstu leiktíð en hinn efnilegi markvörður hefur ákveðið að taka sér frí frá knattspyrnunni. María Mist Guðmundsdóttir og Ornela verða því markverðir ÍA á næstu leiktíð.

Tori Ornela.