Einar Logi samdi við ÍA út leiktíðina

Skagamenn halda áfram að semja við leikmenn fyrir tímabilið 2018.

Í dag skrifaði Einar Logi Einarsson undir samning sem gildir út tímabilið. Einar Logi lék síðast með ÍA árið 2014. Einar Logi er 27 ára gamall og var fyrirliði Kára á síðustu leiktíð.

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA og Einar Logi Einarsson. Einar er til hægri á myndinni.

Varnarmaðurinn skoraði fimm mörk fyrir Kára í þeim 15 leikjum sem hann lék með Kára.

Rafvirkinn, tölvunarfræðingurinn og sjúkraflutningamaðurinn lék með yngri flokkum ÍA og á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands.

Við hér á skagafrettir.is óskum ÍA og Einari Loga til hamingju með samninginn – en það er samt sem áður óskiljanlegt að þessi frétt hafi ekki birst fyrst hér á síðum Skagafrétta. Það mál verður tekið upp á ritstjórnarfundi mjög fljótlega.