Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi hefur leik á öðru móti keppnistímabilsins á LET Evrópumótaröðinni á fimmtudaginn. Valdís Þóra mun leika á fjórum mótum í Ástralíu á næstu vikum og hefur hún lokið við fyrsta mótið.
Að þessu sinni keppir Íslandsmeistarinn 2017 á ActewAGL Canberra Classic mótinu sem er hluti af sterkustu mótaröð Evrópu. Mótið fer fram á Royal Canberra vellinum í höfuðborginni Canberra.
Hún á rástíma kl. 20.41 að íslenskum tíma fimmtudaginn 8. febrúar en þá er kl. 7.41 að morgni föstudagsins 9. febrúar í Canberra.
Á öðrum keppnisdeginum á Valdís Þóra rástíma kl. 01.41 aðfaranótt laugardagsins 10. febrúar en þá er kl. 12:41 að degi til hjá Valdísi Þóru í Ástralíu.
Hér verður skor keppenda uppfært.
Mótið er 54 holur og verður niðurskurður eftir tvo keppnisdaga.
„Völlurinn er mjög flottur, smá hæðóttur á örfáum holum en ekkert dramatískt,“ segir Valdís Þóra á fésbókarsíðu sinni.