Á síðasta fundi Bæjarstjórnar Akraness var einhugur hjá öllum bæjarfulltrúum í því að mótmæla harðlega uppsögnum starfsfólks hjá starfsstöð sýslumannsins á Akranesi.
Uppsagnirnar fela m.a. í sér að ekki verður lengur til staðar löglærður fulltrúi með fasta viðveru í langfjölmennasta byggðarkjarna Vesturlands.
Samþykkt var eftirfarandi bókun bæjarstjórnar:
Í aðdraganda þeirra breytinga sem gerðar voru í upphafi árs 2015, með aðskilnaði sýslumanns- og lögreglustjóraembætta, mótmæltu bæjaryfirvöld á Akranesi harðlega þeim áformum að hvorki sýslumaður né lögreglustjóri yrðu staðsettir á Akranesi en einungis á Vesturlandi var gengið framhjá stærsta byggðarkjarna umdæmis við val á staðsetningu umræddra embætta.
Í kjölfar framangreindra ráðstafana var því lofað að þjónustan á Akranesi yrði sambærileg við það sem áður var hvort sem litið væri til starfsemi lögreglu eða sýslumanns. Þær ákvarðanir sem nú hafa verið teknar munu að mati bæjarstjórnar augljóslega skerða þjónustu við bæjarbúa og eru með öllu óásættanlegar.
„Bæjarstjórn Akraness skorar á hæstvirtan dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, að bregðast tafarlaust við þessari stöðu og beita sér fyrir því að fjárheimildir verði auknar til samræmis við áður gefin fyrirheit um „…starfsstöðvar og starfsmannahald hjá embættunum…“ sbr. m.a. nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018.
Sigríður Indriðadóttir (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)
Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)
Ingibjörg Valdimarsdóttir (sign)
Ingibjörg Pálmadóttir (sign)
Þórður Guðjónsson (sign)