Smiðjuloftið – nýtt afþreyingarsetur fyrir Skagamenn

„Smiðjuloftið verður afþreyingarsetur fyrir Skagamenn og gesti þeirra segir Skagamaðurinn Þórður Sævarsson sem hefur sett á laggirnar fyrirtækið Smiðjuloftið ásamt Valgerði Jónsdóttur eiginkonu sinni. Þórður er frumkvöðull í klifuríþróttinni á Akranesi og mun Klifurfélagið nýta aðstöðuna í Smiðjuloftinu til æfinga og keppni. Eins og nafnið gefur til kynna er Smiðjuloftið að finna við götuna Smiðjuvelli nr. 17 á Akranesi.

„Stærsti hluti Smiðjuloftsins verður klifursalur þar með leysum við aðstöðumál Klifurfélagsins. Fjöldinn er það mikill á æfingum að aðstaðan í kjallar íþróttahússins við Vesturgötu var fyrir löngu of lítil fyrir félagið. Samhliða starfi Klifurfélagsins verður hæg tað taka á móti hópum í hreyfingu og aðra viðburði. Við verðum með opna tíma fyrir almenning í klifur, fjölskyldutíma og einnig verður hægt að leigja aðstöðuna fyrir ýmsa viðburði, afmælisveislur og slíkt.“

Þórður og Valgerður hafa á undanförnum árum verið áberandi í tónlistarlífi Skagamanna. Smiðjuloftið verður með aðstöðu fyrir slíkt á efri hæð hússins. „Þar verðum við með aðstöðu fyrir tónlistarflutning og aðra viðburði. Við stöndum sjálf í þessu öllu saman og Klifurfélagið leigir aðstöðuna af okkur á neðri hæðinni,“ segir Þórður Sævarsson við skagafrettir.is.

Framundan er mikil vinna við að koma Smiðjuloftinu í það horf sem stefnt er að. Klifurveggirnir eru í vinnslu hjá verkfræðistofu og spennandi tímar framundan.