Valdís Þóra í toppbaráttunni í Suður-Afríku

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi er í toppbaráttunni fyrir lokahringinn á LET móti sem fram fer í Suður-Afríku.

Íslandsmeistarinn 2017 lék frábært golf á öðrum hringnum eða -3 og er hún samtals á -1 eftir 36 holur (74-69). Mótið heitir Investec SA Women’s Open og fer fram á Westlake Golf Club.

Leiknar verða 54 holur og er þetta sterkasta mótaröð Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki.

Valdís byrjaði gríðarlega vel í dag, og var á -4 eftir 9 holur og -2 samtals. Hún fékk alls fimm fugla og tvo skolla á hringnum í dag.

Skagakonan og íþróttamaður Akraness 2017 hefur tvívegis náð þriðja sætinu á LET Evrópumótaröðinni. Það er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

 

Hér er skor keppenda uppfært.