Skagmenn eru með „Með allt á hreinu“ segir Stuðmaðurinn Egill

Það er óhætt að segja að sýningin sem leikfélag Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Tónlistarskólinn á Akranesi bjóða upp á í Bíóhöllinni á Akranesi hafi svo sannarlega slegið í gegn.

Troðfullt hefur verið á fyrstu sýningarnar á leikritið sem heitir Með allt á hreinu og byggir á sögunni sem Stuðmenn sögðu í samnefndri kvikmynd sem frumsýnd var árið 1982.

Stuðmaðurinn Egill Ólafsson, sem er einn af stofnfélögum hljómsveitarinnar, fer lofsamlegum orðum um sýninguna en hann var viðstaddur frumsýninguna.

Egill skrifaði eftirfarandi á fésbókarsíðu sína.

Í kvöld sá ég aldeilis duglega nemendur, Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi ásamt með nemendum Tónlistarskóla Akraness, standa að mjög skemmtilegri sýningu byggða á kvikmyndinni ,,Með allt á hreinu“ – semsagt; leikur, söngur og dans.

Oft vill það gleymast hvað svona uppsetning er mikilvæg í skólastarfi. Ég leyfi mér að fullyrða að fátt sé lærdómsríkara fyrir ungmenni – en að ástunda samvinnu, þar sem allir leggja sameiginlega hönd á plóg til að ná í einu félagi, góðum árangri – sem var þessi sýning kvöld.

Í þessu tilviki höfðu þau kennara frá skólunum til aðstoðar – tónlistarkennara, söngkennara og leikstjóra – fyrir utan það sjá þau um leik, dans, söng og tækni sjálf – falleg vinna hjá öllum.

Þá má heldur ekki gleyma glæsilegu leikhúsi, sem unga fólkið hefur aðgengi að, með fullkominni tækni sem fylgir Bíóhöllinni – sem Ísólfur Haraldsson, hefur endurreist af stórhug og með viti hjartans, Akranes getur verið stolt af öllu þessu magnaða fólk – til hamingju og takk fyrir mig.

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/03/08/med-allt-a-hreinu-frumsynt-i-biohollinni/