Inga Elín nálgast sitt besta form eftir áföll og meiðsli

„Undanfarin tvö ár hafa verið erfið. Ég hef glímt við meiðsli, veikindi og persónulega erfiðleika sem hafa sett stórt strik í reikninginn og haft áhrif á árangur minn í sundinu,“ segir Skagakonan Inga Elín Cryer við skagafrettir.is. Þróunin á undanförnum mánuðum hefur verið í rétta átt hjá Ingu Elínu sem hefur náð lágmörkum fyrir Smáþjóðaleika, Norðurlandameistaramótið og sett Íslandsmet þrátt fyrir mótlætið.

„Ég held að það sé bara góður árangur miðað við allt. Það er ákveðinn sigur að halda áfram að æfa án þess að vera bæta sig. Ég er að nálgast mitt besta form eftir þessi áföll og æfingarnar ganga vel.“

Inga Elín æfir hjá Sundfélaginu Ægir en hún hefur æft með félaginu frá árinu 2011 og keppt fyrir félagið frá byrjun árs 2013.

„Greinarnar sem ég einbeiti mér að eru 200 og 400 skriðsundi og 100 og 200 flugsund. Þetta er allt að þokast í rétta átt. Mér gengur vel á æfingum og er að sýna miklar framfarir bæði ofan í lauginni sem og í ræktinni. Ég er nokkuð bjartsýn á næstu misseri. Ég hef tekið þá ákvörðun að einfalda aðeins lífið með því að huga bara um fá verkefni í einu. Það er mánuður í ÍM50 og ég er spennt að sjá hvernig það fer. Að því loknu er EM í 50 metra laug í ágúst og ég er aðeins farin að hugsa þangað. Það eru stórmót framundan, ÓL og HM en ég ætla að meta stöðuna eftir sumarið.“

Inga Elín Cryer.

Eins og áður segir æfir Inga Elín með Ægi í Reykjavík.

„Ástæða þess að ég þurfti að taka þá erfiðu ákvörðun að fara frá mínu uppeldisliði, ÍA á Akranesi, var einungis vegna slæmra aðstæðna. Í Laugardalslauginni æfum við inni allan ársins hring ýmist í 25 og 50m laug til skiptis. En þegar ég var að æfa með ÍA þurftum við oft að keyra til Reykjavikur/Hafnarfjarðar til að ná æfingum í 50 m laug fyrir Íslandsmeistaramótið. Síðan féll hitastigið oft niður á lauginni á veturnar og var hún oft of köld til þess að synda í, einnig spilar það inní að ég er með liðagigt og að æfa úti allan ársins hring getur valdið miklum stífleika og sársauka. Þetta var alls ekki auðveld ákvörðun, þar sem hjarta mitt slær ávallt gulu og svörtu, en nauðsynleg engu að síður. Ég viðurkenni þó að sakna þess að æfa í útilaug á sumrin.“

Dagarnir eru langir hjá Ingu Elínu sem fer lítið út fyrir sundlaugarsvæðið í Laugardal. Hún vinnur þar sem laugarvörður en hún býr á Akranesi.

„Ég vakna alla virka morgna kl. 04.40 og fæ mér góðan morgunmat áður en ég legg af stað frá Akranesi á morgunæfingu sem byrja kl 06.00 og er ég á æfingu til kl 07.30. Ég byrja að vinna alla virka morgna kl 08.00, svo ég hef tíma eftir morgunæfingar til að kíkja í sjópottinn og gufu fyrir vinnu. Ég vinn alla virka daga til kl 15.00. Á mánudögum og þriðjudögum fer ég á kvöldæfingar kl 18.30-20.30, sem þýðir að ég hef rúma 3 klst pásu áður en æfingin byrjar og reyni ég þá yfirleitt að leggja mig eða nota tímann í smá stúss. Á miðvikudögum og fimmtudögum er ég á æfingu kl 16.30-18.30, sem er mjög fínt því þá er ég búin fyrr á daginn. Á föstudögum eru síðan kvöldæfingar kl 18-20. Eftir kvöldæfingar keyri ég aftur heim uppá Skaga, borða smá létt á leiðinni, því ég er svo heppin að koma heim í tilbúinn kvöldmat. Mamma og pabbi, Sigurlaug Karen Guðmundsdóttir og Jón Gunnar Ingibergsson hugsa vel um mig og eru ómetanleg.

Reyni svo að vera komin uppí rúm eins fljótt og ég get, því það er aftur ræs kl 04.40 morguninn eftir, sagði Inga Elín Cryer.

Inga Elín Cryer.