Metfjöldi ferðamanna við Akranesvita – Norðurljósin heilla

Ferðamönnum fer fjölgandi á Akranesi. Hilmar Sigvaldason „Vitavörður“ tekur á móti gríðarlega mörgum þeirra við Akranesvitann og nýverið var sett nýtt met á þeim slóðum.

Stærsti einstaki hópur ferðamanna sem heimsótt hefur Akranesvitann á sama tíma kom s.l. mánudag. Þetta voru ferðamenn á vegum Gray Line hópferðafyrirtækisins.

Norðurljósin voru efst á baugi hjá þessum hóp sem kom í fimm rútum og samtals voru þetta 270 manns. Norðurljósin dönsuðu ekki á himnum í þetta skipti. Forsvarsmenn Gray Line eru ánægð með aðstöðuna við Akranesvitann og er allt eins líklegt að framhald verði á komum þeirra á Akranes í Norðurljósaferðir.

„Að þeirra mati er stutt að fara frá Reykjavík á Akranes, aðstaðan fyrir rúturnar er góð og salernisaðstaðan einnig Vonandi er þessi heimsókn bara byrjunin á góðu samstarfi við Gray Line og fleiri ferðaskrifstofur sem sinna erlendum ferðamönnum.

Fyrr um daginn tók ég svo á móti 11 öðrum ferðamönnum meðal annars frá Argentínu, Möltu, Englandi og Singapore,“ segir Hilmar Sigvaldason í samtali við skagafrettir.is

Þessi komu alla leið frá Argentínu.

Þessi hópur kom frá Möltu.

Englendingar kunna vel við Ísland og Akranesvitann.

Þessi hjón komu alla leið frá Singapúr til að skoða Akranesvitann.