„Gutti“ er miðpunkturinn í Páskasýningu Vignis á Café Lesbók

„Portrettverk af Guðbjarti Hannessyni eða Gutta æskuvini mínum og skátafélaga er miðpunkturinn í þessari litlu málverkasýningu sem verður um Páskana á Café Lesbókin við Akratorg. Ég vildi gefa Skagamönnum tækifæri til þess að sjá þessa mynd sem ég málaði til heiðurs Gutta,“ segir Skagamaðurinn Vignir Jóhannsson við skagafrettir.is.

Vignir er í hópi virtustu og þekktustu myndlistamanna Íslands. Vignir er fæddur á Akranesi og ólst hér upp. Skagamaður í húð og hár, og gamli heimabærinn er honum innblástur í listsköpuninni.

„Málverkin á þessari sýningu hafa orðið til á Akranesi á undanförnum mánuðum. Krossvíkin er innblásturinn í mörgum þeirra. Eflaust eru þar líka æskuminningar en ég ólst upp við Mánabrautina og Jaðarsbrautina með útsýni yfir Faxaflóann,“ bætir Vignir við.

Sýningin er eins og áður segir í Café Lesbókin við Akratorg en kaffihúsið er opið frá morgni fram á kvöld alla daga vikunnar.