Gríðarlegt fjör á fótboltamaraþoni í Akraneshöll

Það var mikið fjör og líf í Akraneshöllinni í gærkvöld. Þar mættu vel á fimmta tug leikmanna úr 5. flokki karla í maraþonfótbolta.

Leikmennirnir léku sér í knattspyrnu, þrautum og leikjum í rúmlega 6 klukkutíma. Fjörið hófst kl. 18 og lauk því um miðnætti og var enn mikill kraftur í þátttakendum á þeim tíma.

Foreldrar tóku virkan þátt og var boðið upp á stórleik þar sem krakkarnir kepptu gegn foreldrum. Margir mættu í furðubúningum og skrautlegum fatnaði sem lífgaði upp á stemninguna.

Maraþonfótboltinn var fjáröflunaverkefni 5. fl. vegna þátttöku liðsins á N1 mótinu á Akureyri í sumar.

Krakkarnir, sem eru fædd árið 2006 og 2007, sögðu við skagafrettir.is í gær að vel hafi verið tekið á móti þeim í fjáröflunni. Þau gengu um bæinn og bönkuðu upp á hjá Skagamönnum.

Alls söfnuðust rúmlega 600 þúsund kr. í ferðasjóðinn sem var framar vonum.

Leikmenn 5. fl. ÍA senda þakklætiskveðjur til allra þeirra sem studdu við bakið á þeim í þessu verkefni. Sérstaklega Dominos á Akranesi sem gaf fjölda gjafabréfa í keppnir, og leiki á þessu maraþonkvöld.