Unglingar á Akranesi sem verða í Vinnuskólanum í sumar geta glaðst yfir því að þeir fá 10% launahækkun sumarið 2018. Á fundi bæjarráðs á dögunum var samþykkt að hækka tímakaupið hjá 14-17 ára unglingum um 10%.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnuskóla Akraness verður tímakaupið í sumar með eftirfarandi hætti.
14 ára fá 550 kr. á tímann (var áður 500 kr.) og stendur til boða að vinna í hálfan mánuð samfellt, og í hálfan dag í hvert sinn. Til samanburðar þá var tímakaupið hjá þessu aldurshóp 400 kr. árið 2013.
15 ára fá 620 kr. á tímann (var áður 565 kr.) og stendur til boða að vinna í 4 vikur allan daginn. Til samanburðar þá var tímakaupið hjá þessu aldurshóp 450 kr. árið 2013.
16 ára fá 825 kr. á tímann (var áður 750 kr.) og stendur til boða að vinna í 6 vikur allan daginn. Til samanburðar þá var tímakaupið hjá þessu aldurshóp 596 kr. árið 2013.
17 ára fá 1.457 kr. á tímann (var áður 1.424 kr.) og stendur til boða að vinna að lágmarki í 4 vikur en stefnt er að vinnu í 8 -10 vikur, og ræðst það af fjölda umsækjenda í þessum árgangi.