Eva Björg verðlaunuð fyrir spennusöguna „Marrið í stiganum“

Eva Björg Ægis­dóttir frá Akranesi fékk í dag afhent spennu­sagna­verð­launin Svart­fuglinn fyrir bókina Marrið í stiganum.

Eliza Reid, forsetafrú, af­henti verðlaunin.

 

Yrsa Sigurðar­dóttir og Ragnar Jónas­son eru hug­mynda­fræðingarnir að baki verð­laununum sem ætluð eru höfundum sem ekki hafa áður sent frá sér glæpa­sögu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Eva er eins og áður segir frá Akranesi en foreldrar hennar eru Ægir Jóhannsson og Sigríður Björk Kristinsdóttir.




Í áliti dómnefndar um bókina segir meðal annars: „Sagan er grípandi og spennandi samhliða því að veita innsýn í myrkan og sáran veruleika. Fléttan er fagmannlega unnin, söguþráðurinn sterkur og sögulokin koma lesandanum á óvart.“

Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Sigurvegaranum býðst einnig samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu árið 2015.

Eva er með MSc gráðu í alþjóðamálum frá Tækniháskólanum í Þrándheimi og BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar hjá fyrirtækinu Maskína en hún hefur einnig starfað á þróunarsviði VÍS tryggingafélags, verið aðstoðamaður við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sem starfsmaður á alþjóðasviði hjá utanríkisráðuneytinu í Noregi. Þá hefur hún starfað sem fyrsta flugfreyja hjá flugfélaginu Wow Air.