„Ég vil þakka öllum þeim sem heiðruðu mig með nærveru sinni og þakklæti til allra þeirra, er lögðu hönd á plóg og gerðu það mögulegt að halda tónleikana, „Við tónanna klið“ í Tónbergi daganna 23. mars og 14. apríl sl. Sérstakar þakkir til Lárusar Sighvatssonar sem hélt utan um verkefnið,“ segir Óðinn G. Þórarinsson í samtali við Skagafréttir.
„Ég veit ekki hvernig best er að lýsa því hvernig mér leið á tónleikunum. Það var gleðilegt hversu margir mættu og flutningurinn var fyrsta flokks. Ég var sjálfur mjög utan við mig á meðan þessu stóð, mér þótti þetta allt saman mjög skrítið. Ég náði því ekki að þakka fyrir mig á staðnum. Þess vegna er ég að gera þetta með þessum hætti,“ sagði Óðinn G. Þórarinsson við Skagafréttir.
Óðinn er tónskáld og harmonikkuleikari og á hann að baki langan og farsælan feril sem tónlistarmaður og tónlistarkennari. Eru nokkur laga hans löngu orðin landsþekkt. Má þar nefna lög eins og Nú liggur vel á mér, Heillandi vor og Blíðasti blær og voru þau flutt á tónleikunum, í bland við minna þekkt lög Óðins og enn önnur sem aldrei hafa heyrst áður, nema ef til vill við píanóið á heimili hans.
„Ég er fæddur árið 1932 og er því ekkert unglamb lengur. Ég byrjaði að semja lög og tónlist á harmonikkuna þegar ég var krakki austur á Fáskrúðsfirði. Ég skrifa eitthvað niður í dag þegar mér dettur eitthvað í hug, en það er bara í gamni gert. Það hefur alltaf verið þannig hjá mér. Ég tók mig til fyrir þremur árum að safna þessu saman sem ég átti. Skrifaði allt upp og hljómsetti upp á nýtt. Það eru líklega 50 lög í bókinni minni en ég á eitthvað meira til,“ segir Óðinn að lokum en hann flutti á Akranesi á ný árið 2012 ásamt eiginkonu sinni Jónínu Árnadóttur.