Erna hafði rétt fyrir sér! – Kári fær Víking R. og ÍA mætir Grindavík

Erna Sigurðardóttir, íþróttakennari við Grundaskóla, spáði rétt fyrir um að synir hennar myndu mætast í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu.

Erna velti því fyrir sér í gær á samfélagsmiðlinum Instagram hvort Sindri Snæfells Kristinssson leikmaður Kára og Arnþór Kristinsson leikmaður Víkings úr Reykjavík myndu mætast. Og mamman hafði rétt fyrir sér.

Kári, sem leikur í 2. deild, fékk Víking úr Reykjavík sem leikur í Pepsi-deildinni. ÍA þarf að ferðast suður með sjó og mætir Grindavík á útivelli. Leikirnir fara fram á tímabilinu 30.-31. maí.

Lið Kára er eina liðið sem er eftir í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins sem er ekki í Pepsi eða Inkasso-deild, en það eru tvær efstu deildirnar á Íslandsmóti karla í knattspyrnu.

Dregið var í 16 liða úrslit Mjólkurbikars karla í dag í höfuðstöðvum KSÍ, en leikirnir fara fram dagana 30. og 31. maí.

16 liða úrslit

FH – KA
Kári – Víkingur R.
Valur – ÍBV
Fram – Víkingur Ó.
Fjölnir – Þór
Breiðablik – KR
Stjarnan – Þróttur R
Grindavík – ÍA