Valdís Þóra keppir á heimavelli um helgina

Margir af bestu kylfingum landsins verða við keppni á Garðavelli á Akranesi næstu daga. Föstudaginn 18. maí hefst Egils-Gull mótið á Eimskipsmótaröðinni – sem er mótaröð þeirra bestu á Íslandi.

Mótið er það þriðja í röðinni á keppnistímabilinu 2017-2018 á Eimskipsmótaröðinni.

Keppendur sem skráðir eru til leiks eru tæplega 90 og þar ber hæst að Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni og Axel Bóason úr Keili eru á meðal keppenda.

Þau eru ríkjandi Íslandsmeistarar í golfi og leika bæði á sterkustu atvinnumótaröðum Evrópu.

Alls eru 17 keppendur skráðir til leiks í kvennaflokki og ber þar hæst að atvinnukylfingarnir Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili eru á meðal keppenda.

Auglýsing



Valdís er á heimavelli á þessu móti en hún fagnaði Íslandsmeistaratitlinum árið 2017. Valdís leikur á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Evrópumótaröðinni, og Guðrún Brá keppir á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Valdís og Þórdís Geirsdóttir úr GK eru einu keppendurnir í kvennaflokki sem hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn í golfi.

GR er með flesta keppendur í kvennaflokki eða sex alls, Keilir kemur þar á eftir með fjóra keppendur. Keppendur í kvennaflokki koma samtals úr átta golfklúbbum víðsvegar af landinu.

GR – 6
GK – 4
GM – 2
GA – 1
GHD -1
GKG -1
GL -1
GOS -1

Auglýsing



Í karlaflokki eru 70 keppendur skráðir til leiks. Fjórir þeirra hafa fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi, þeir eru Axel Bóasson úr Keili, Ólafur Björn Loftsson úr GKG, Sigmundur Einar Másson úr GKG og Kristján Þór Einarsson úr GM.

Alls eru keppendur frá 17 klúbbum víðsvegar af landinu á meðal keppenda á Egils-Gull mótinu. Flestir frá GR eða 16, og GKG er með 15 keppendur, GM er með 10, GK 7 líkt og GA. Athygli vekur að heimamenn úr Leyni eru ekki á meðal keppenda í karlaflokknum – en Valdís Þóra er eini keppandinn frá GL í þessu móti.

NK -1
GVS -2
GV -1
GSE -1
GR – 16
GOS – 2
GÖ – 1
GM – 10
GKG – 15
GK – 7
GÍ – 1
GHR – 1
GHH – 1
GHD – 1
GFH -1
GEY – 1
GA -7

Auglýsing