Aðsend grein:
Það voru ánægjuleg og fyllilega tímabær tíðindi sem bárust frá borði ríkisstjórnarinnar fyrir skömmu um að veitt yrði fjórum milljörðum króna aukalega á þessu ári til vegaframkvæmda til viðbótar við það fé sem þegar var ákveðið að veita á fjárlögum í langsvelt samgöngukerfi landsmanna.
Nú þegar kosningar nálgast berast hins vegar miður skemmtilegri tíðindi, ef sönn eru, frá borði samgönguráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins. Þau eru þó með kunnuglegum gamaldags blæ þegar horft er til tímasetningarinnar. Kjördæmi ráðherrans kemur sterkt út og síðan virðist styrkleiki einstakra þingmanna flokksins ráða miklu. Til heimabrúks hafa slíkar tillögur stundum verið kallaðar.
Fjárframlögin til Vesturlands munu aðeins verða um 5% af heildarframlaginu, ef forgangsröð Framsóknarflokksins fær að ráða. Þar er um að ræða uppbyggingu þriggja kílómetra langs vegarkafla í Dölum. Þessi forgangsröð er í hrópandi mótsögn við gildandi samgönguáætlun Vesturlands, sem öll sveitarfélög landshlutans samþykktu samhljóða á sínum tíma. Hún er líka algjör hunsun á ákalli íbúa á Vesturlandi og á Kjalarnesi sem glöggt kom fram á fjölmennum íbúafundum á sínum tíma. Þessi tillaga formanns Framsóknarflokksins er líka svik við hans eigin loforð á þessum sömu íbúafundum.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akranesi hafa þegar komið þeim skilaboðum til forystu Sjálfstæðisflokksins um, að við þessa forgangsröð verði ekki unað. Það er afar brýnt að þegar verði hafist handa við framkvæmdir á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, um leið og skipulagsvinnu Reykjavíkurborgar lýkur. Fyrir því munum við berjast, hér eftir sem hingað til.
Við trúum því og treystum að frambjóðendur annarra flokka séu okkur sammála í þessu brýna hagsmunamáli íbúa Akraness. Ekki síst á það við um frambjóðendur og þingmenn Framsóknarflokksins, sem okkur þykir lítil virðing sýnd með þessum tillögum. Þeir hafa þó fram að þessu setið hljóðir í umræðunni. Það er ekki traustvekjandi.
Formaður Framsóknarflokksins hefur áður hlaupið af stað með lítt ígrundaðar hugmyndir í samgöngumálum, sem hann síðar hefur þurft að breyta. Við vonum að svo sé nú. Við sættum okkur í það minnsta ekki við þær óbreyttar.
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins við bæjarstjórnarkosningarnar á Akranesi:
Auglýsing