Aðsent: Skot út í loftið

Aðsend grein:

Kosningabaráttan hingað til hefur verið heiðarleg og sanngjörn. Við í Framsókn og frjálsum höfum fundið fyrir miklum meðbyr og velvilja og erum þakklát fyrir það.

Við höfum átt góð samskipti við önnur framboð sem ber að þakka. Því þykir okkur miður að sjá að á lokametrum baráttunnar grípi menn til innistæðulausra ásakana eins og fram kom í grein frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag.

Við í Framsókn og frjálsum lögðum upp í heiðarlega og hreinskipta kosningabaráttu og ætlum okkur ekki að taka þátt í þeirri orðræðu sem Sjálfstæðisflokkurinn bíður nú upp á.

Hins vegar er rétt að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn fór með ráðuneyti samgöngumála á árunum 2013 – 2017 eða í samtals fimm ár. Þeir sem fara um Vesturlandsveg vita best hvað gerðist á þeim tíma. Framsóknarflokkurinn hefur stýrt þessu ráðuneyti í fimm mánuði.

Eitt af fyrstu verkum ráðherra Framsóknarflokksins var að setja fjármagn í Vesturlandsveginn, 300 milljónir. Fjármagn sem þetta hafði ekki komið í mörg ár í Vesturlandsveginn og alls ekki á meðan Sjálfstæðisflokkurinn fór með samgöngumálin.

Ráðherra Framsóknarflokksins hefur lagt allt kapp á að flýta skipulagsvinnu við úrbætur á Vesturlandsvegi eins hratt og kostur er. Það er ekki hægt að byrja þessar nauðsynlegu úrbætur fyrr en skipulagsvinnunni er lokið en henni lýkur um mitt þetta ár og þá verður hægt að hefjast handa, það er að segja ef allir flokkar á Alþingi sannmælast um nauðsyn þessa. Þar vegur fjármálaráðuneytið þungt og við trúum ekki öðru miðað við yfirlýsingar frambjóðenda Sjálfstæðismanna að þeir beiti sér vel hjá sínum ráðherra og komi öflugri að borðinu en áður.

Svona skrif dæma sig sjálf. Hér sjá allir að það er einungis verið að kasta ryki í augu kjósenda korter í kosningar.

Ágæti Skagamaður, við í Framsókn og frjálsum ætlum að halda áfram málefnalegri kosningabaráttu. Við vonum að þessi vinnubrögð Sjálfstæðismanna sé einungis einangrað tilvik og komi ekki til með að skemma þessa skemmtilegu baráttu. Staðreyndin er sú að á sunnudagsmorguninn þurfum við öll að geta talað saman, sama hvort um er að ræða minni – eða meirihluta.

Virðingarfyllst,
frambjóðendur Framsóknar og frjálsra á Akranesi.

Auglýsing