Sigríður Ása í hópi framúrskarandi kennara á Íslandi

Sigríður Ása Bjarnadóttir, leikskólakennari á leikskólanum Teigaseli á Akranesi fékk í dag viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf. Sigríður Ása, sem er fædd og uppalin á Akranesi, var ein af fimm kennurum á landinu sem fékk slíka viðurkenningu.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitir þessar viðurkenningar og fékk Sigríður Ása viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag.

Verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, rektor Háskóla Íslands, og forseta Menntavísindasviðs. Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Gísli Hólmar Jóhannesson, kennari hjá Keili, Sara Diljá Hjálmarsdóttir, kennari í Höfðaskóla, Valdimar Helgason, kennari í Réttarholtsskóla, Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, Sigríður Ása Bjarnadóttir, kennari í Leikskólanum Teigaseli, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

 

Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli

„Ég ákvað að gerast leikskólakennari út af konu eins og Siggu Ásu. Hún er ein besta fyrirmynd sem ég hef haft í starfi mínu og er einstaklega vel liðin af öllum í nærumhverfinu, hvort sem um er að ræða samstarfsfólk, börn eða foreldra. Hún á skilið endalaust hrós fyrir störf sín og hefur allt það til brunns að bera sem einkennir góðan kennara!“

AuglýsingVerðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is.

Tilgangur átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið.

Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu.

Í fyrsta sinn voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Eftirfarandi kennarar hljóta viðurkenningu að þessu sinni:

Gísli Hólmar Jóhannesson, Keili
Sara Diljá Hjálmarsdóttir, Höfðaskóla
Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli
Valdimar Helgason, Réttarholtsskóla

Hvatningarverðlaun – Hafðu áhrif
Ingvi Hrannar Ómarsson hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Auglýsing