Sigríður Ása í hópi framúrskarandi kennara á Íslandi

Sigríður Ása Bjarnadóttir, leikskólakennari á leikskólanum Teigaseli á Akranesi fékk í dag viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf. Sigríður Ása, sem er fædd og uppalin á Akranesi, var ein af fimm kennurum á landinu sem fékk slíka viðurkenningu.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitir þessar viðurkenningar og fékk Sigríður Ása viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag.

Verðlaunahafar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra, rektor Háskóla Íslands, og forseta Menntavísindasviðs. Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Gísli Hólmar Jóhannesson, kennari hjá Keili, Sara Diljá Hjálmarsdóttir, kennari í Höfðaskóla, Valdimar Helgason, kennari í Réttarholtsskóla, Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, Sigríður Ása Bjarnadóttir, kennari í Leikskólanum Teigaseli, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson

 

Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli

„Ég ákvað að gerast leikskólakennari út af konu eins og Siggu Ásu. Hún er ein besta fyrirmynd sem ég hef haft í starfi mínu og er einstaklega vel liðin af öllum í nærumhverfinu, hvort sem um er að ræða samstarfsfólk, börn eða foreldra. Hún á skilið endalaust hrós fyrir störf sín og hefur allt það til brunns að bera sem einkennir góðan kennara!“

Auglýsing



Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is.

Tilgangur átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið.

Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu.

Í fyrsta sinn voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Eftirfarandi kennarar hljóta viðurkenningu að þessu sinni:

Gísli Hólmar Jóhannesson, Keili
Sara Diljá Hjálmarsdóttir, Höfðaskóla
Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli
Valdimar Helgason, Réttarholtsskóla

Hvatningarverðlaun – Hafðu áhrif
Ingvi Hrannar Ómarsson hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Auglýsing