Eðvarð Lárusson er bæjarlistamaður Akraness 2018

Eðvarð Lárusson var í dag útnefndur bæjarlistamaður Akraness. Tónlistamaðurinn á glæstan feril að baki en hann er kennari við Tónlistaskóla Akraness.

Eðvarð hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina en hann er gítarleikari – og af mörgum talinn einn sá allra besti í faginu hér á landi. Eðvarð, sem er fæddur árið 1963, er fæddur á Akranesi og hóf hann ferilinn með hljómsveitinni Tíbrá á Akranesi.

Sævar Freyr Þráinsson tilkynnti um valið á bæjarlistamanni ársins á hátíðarsamkomu á Akratorgi í dag. Eðvarð var á þeim tíma að undirbúa tónleika á sviðinu – en hann vissi ekki af útnefningunni þegar bæjarstjórinn las upp nafn hans í dag. Skemmtileg stund sem vakti mikla kátínu hjá þeim sem voru viðstaddir á Akratorgi í dag.

Eðvarð, eða Eddi eins og hann er oftast kallaður, hóf ungur að árum að leika á gítar og lærði gítarleik fyrst í Tónlistarskólanum á Akranesi og síðar meir í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan frá djassdeild árið 1991.

Hann hefur á löngum og farsælum ferli spilað með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum landsins. Hann vakti fyrst athygli á Akranesi á unglingsaldri með Skaga-hljómsveitinni Tíbrá. Úr Tíbrá fór hann í Start og síðan hefur hann meðal annars spilað með Bubba, Blúsboltunum og Bítladrengjunum blíðu, Andreu Gylfadóttur vinkonu sinni, verið gítarleikari Stórsveitar Reykjavíkur, J.J. Soul Band og Gæðablóðum svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur komið fram á hundruðum ef ekki þúsundum tónleika, spilað inn á fjöldan allan af hljómplötum og lögum, og ekki bara spilað heldur líka útsett.

Í apríl 2015 hélt Eddi sína fyrstu eiginlegu sólótónleika. Á efnisskránni var tónlist eftir Neil Young í útsetningum Edda, en með honum spiluðu þar þeir Karl Pétur Smith á trommur og Pétur Sigurðsson á bassa. Þetta vakti talsverða athygli.

Eddi hefur lengi starfað sem kennari við Tónlistarskólann á Akranesi. Hann hóf fyrst störf árið 1984 en hefur starfað við skólann óslitið frá árinu 2008. Hann hefur snert strengi í hjörtum ótal nemenda og þannig haft mikil og jákvæð áhrif á tónlistarmenntun Skagamanna og tónlistarlífið á Akranesi. Það er fátt sem reynist tónlistarnemanda betur en góður kennari sem kennir ekki bara á hljóðfærið heldur hvetur áfram og opnar augu og eyru nemandans fyrir töfrum tónlistarinnar. Eddi er vinsæll kennari og hefur sett saman hópa og hljómsveitir innan skólans og margsinnis komið fram með nemendum við hin ýmsu tækifæri. Nýlegt dæmi er hljómsveitarstjórn í söngleiknum Með allt á hreinu sem NFFA setti upp í samstarfi við Tónlistarskólann nýliðinn vetur.

Eftirtaldir listamenn hafa fengið titilinn bæjarlistamaður Akraness:
2017: Kolbrún S. Kjarval leirlistakona
2016: Slitnir strengir, þjóðlagasveit
2015: Gyða L. Jónsdóttir Wells myndhöggvari
2014: Erna Hafnes myndlistakona
2013: Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur
2012: Sveinn Arnar Sæmundsson orgelleikari
2011: Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona
2010: Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður
2005-2009: Friðþjófur Helgason ljósmyndari (eitt kjörtímabil)
2004: Bragi Þórðarson bókaútgefandi og rithöfundur
2003: Enginn hlaut nafnbótina þetta árið en menningarmála- og safnanefnd ákvað að nýta starfsstyrk fyrir menningarviku í október (fyrstu Vökudagarnir)
2002: Kristján Kristjánsson rithöfundur og bókaútgefandi
2001: Smári Vífilsson tenórsöngvari
1999-2000: Enginn hlaut nafnbótina þessi ár en starfslaun bæjarlistamanna var varið til að styrkja listamenn á Akranesi sem gerðu listaverk tengd viðfangsefninu Sjávarlist
1998: Kristín Steinsdóttir rithöfundur
1997: Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður
1996: Philippe Ricart handverksmaður
1994-1995: Guttormur Jónsson högglistamaður
1993: Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður
1992: Hreinn Elíasson myndlistarmaður

Auglýsing