Sævar Freyr verður áfram bæjarstjóri á Akranesi

Sævar Freyr Þráinsson verður bæjarstjóri á Akranesi næstu fjögur árin. Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti einróma á fyrsta fundi sínum eftir kosningar áframhaldandi ráðningu við Sævar Frey en hann hefur gengt embættinu frá því í mars 2017.

„Við hlökkum til samstarfsins við Sævar og erum ánægð með að hafa tryggt áframhaldandi starf hans sem bæjarstjóra á Akranesi“ er haft eftir oddvitum meirihlutans, þeim Elsu Láru Arnardóttur og Valgarði Lyngdal Jónssyni en þau gengu frá ráðningarsamningi við Sævar nú á dögunum til fjögurra ára.

Sævar er afar þakklátur fyrir það traust sem honum er sýnt að sinna þessu embætti.

„Ég er stoltur að fá að vera bæjarstjóri í bæjarfélaginu sem ég er fæddur og alin upp í. Ég sé mikla möguleika til fyrir okkur sem bæjarfélag að eflast enn frekar td í eflingu atvinnulífs, þjónustu við bæjarbúa og uppbyggingu ýmissa innviða. Það er hlutverk mitt að viðhalda þeirri sókn sem við erum í sem bæjarfélag.“